Innlent

Heilu þorpin með íbúum horfin

"Heilu þorpin á austurströnd Sri Lanka eru horfin. Fólkið líka," segir Helen Ólafsdóttir sem stödd er í höfuðborginni Colombo. Hún hóf störf á Sri Lanka hjá norrænu friðargæslunni á vegum utanríkisráðuneytisins 12. desember. Dánartölur á Indlandi eru komnar yfir ellefu þúsund og fimm hundruð manns, samkvæmt fréttamiðlinum AP. Helen segir þær tölur enn geta hækkað. Landið sé erfitt yfirferðar þar sem mikil rigningarflóð hafa verið fyrir flóðbylgjuna. Erfitt sé því að ná til fólksins sem búi á svæðinu. Nokkrar vikur geti tekið að meta manntjón hamfaranna: "Núna er kapphlaupið hjá alþjóðlegum hjálparstofnunum, hernum, lögreglu og öllum þeim sem koma að málum að fjarlægja lík og skipuleggja flóttamannabúðir svo hægt sé að koma í veg fyrir farsóttir. Það er svo erfitt því stór hluti af landinu er mjög erfiður yfirferðar og skelfilegt að ná til fólksins." Auk rigningarflóðanna segir Helen að flóðbylgjan hafi fært jarðsprengjubelti sem grafið var í jörð á átakasvæðum Tamil Tígra og stjórnvalda úr stað. Enginn viti nákvæmlega hvar sprengjurnar séu niðurkomnar. Skrifstofur norrænu friðargæslunnar sem Helen starfar hjá eru á austurströnd Sri Lanka. Helen segir ástandið þar verst. Gæslan starfi við friðareftirlit og skrái brot á vopnahléssamningi sem Tamíl Tígrum og stjórnvöldum hafi verið sett. Helen segir fylkingarnar tvær vinna vel saman. Það sé ljósið í myrkri hamfaranna. Norræna friðargæslan hafi milligöngu um samskiptin. Auk Helenar starfa Björn Rúriksson og Magnús Norðdahl með friðargæslunni á Sri Lanka. Þeir eru í Ampara-héraði þar sem ástandið er verst: "Ég veit að strákarnir voru að hjálpa á ökrunum og að hjálpa fólki að komast á spítala."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×