Innlent

Friðargöngur víða um land

Gengið er til friðar víða um land í dag eins og venja er á Þorláksmessu. Samstarfshópur friðarhreyfinga efnir til blysfarar niður Laugaveginn sem hefst á Hlemmi klukkan sex. Gengið verður niður á Ingólfstorg þar sem flutt verða ávörp og Hamrahlíðarkórinn syngur. Friðarganga hefst líka við Ísafjarðarkirkju klukkan sex og verður gengið að Silfurtorgi en friðargangan á Akureyri hefst klukkan átta frá Menntaskólanum og verður haldið niður á Ráðhústorg. Þar verður meðal annars mótmælt aðild Íslands að stríðinu og hernáminu í Írak. Tenórarnir þrír syngja að vanda af svölum á horni Ingólfsstrætis og Bankastrætis klukkan hálfníu í kvöld og aftur klukkustund síðar. Tenórarnir að þessu sinni eru Jóhann Friðgeir Valdimarsson, Þorgeir J. Andrésson og Snorri Wium, og leynigestur verður ungur söngvari sem stundar söngnám á Ítalíu og hefur ekki áður komið fram opinberlega hér á landi. Auk karlanna syngja sópransöngkonurnar Auður Gunnarsdóttir og Hulda Björk Garðarsdóttir. Starfsmenn kirkjugarðanna munu, í dag og á morgun frá klukkan níu til þrjú, aðstoða fólk við að finna leiði ástvina í kirkjugörðunum þremur. Umsjónarmenn kirkjugarðanna benda fólki á að leita eftir slíkri aðstoð í tíma og nánari upplýsingar er að finna á slóðinni Gardur.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×