Innlent

Leikskólakennarar semja

Félag leikskólakennara og Launanefnd sveitarfélaga skrifuðu fyrir stundu undir nýjan kjarasamning. Samningurinn gildir til loka september 2006 og færir deildarstjórum allt að 20% hækkun á samningstímanum. Samkvæmt samningnum eru launahækkanir mestar hjá  yngsta hópnum og þeim sem sinna deildarstjórn. Í tilkynningu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga segir að launakostnaður sveitarfélaga hækki um rétt rúman milljarð á tímabilinu. Þar af falli um 465 milljónir til á næsta ári og um 490 milljónir á árinu 2006. Launakostnaðurinn eykst því um rúm 13% á tímabilinu. Á grundvelli kjarasamningsins verða gerðir svokallaðir fastlaunasamningar við leikskólastjóra þar sem grunnlaun og föst yfirvinna eru sameinuð í ein föst mánaðarlaun. Tekið verður upp allt að 2% mótframlag vinnuveitanda vegna séreignarlífeyrissparnaðar starfsmanna.  Á næsta ári munu samningsaðilar gera könnun á vinnuskipulagi leikskólakennara m.t.t. undirbúningstíma. Á árinu 2006 verður unnið úr þeim gögnum sem fyrir liggja. Það er mat samningsaðila að nauðsynlegt sé að framkvæma þessa athugun áður en til frekari umfjöllunar kemur um þessa þætti. Tímalengd kjarasamningsins markast af þessari vinnu. Samningurinn verður nú borinn undir atkvæði félagsmanna í Félagi leikskólakennara annars vegar og Launanefndar sveitarfélaga hins vegar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×