Innlent

Lungnakrabbamein arfgengt

Afkomendur þeirra sem fengið hafa lungnakrabbamein, jafnvel systkinabörn, eru líklegir til að erfa sjúkdóminn samkvæmt tímamótarannsókn vísindamanna Íslenskrar erfðagreiningar, Landspítalans og Hjartaverndar. Reykingar eru eftir sem áður langstærsti áhættuþátturinn. Þetta er fyrsta viðamikla rannsóknin sem gerð er í heiminum á ættgengi lungnakrabbameins sem er það krabbamein sem veldur flestur dauðsföllum á Vesturlöndum og hafa niðurstöður hennar verið birtar í tímariti bandarísku læknasamtakanna, Journal of the American Medical Association. Byggt var á gögnum Krabbameinsfélagsins um alla þá sem höfðu fengið lungnkrabbamein á árunum 1955-2002 og voru þau sett í samhengi við ættfræðigrunn Íslenskrar erfðagreiningar, Íslendingabók. Unnur Þorsteinsdóttir, forstöðumaður erfðarannsókna ÍE, segir hægt sé að fara langt út fyrir kjarnafjölskylduna og að þessari rannsókn hafi verið farið til þriðju gráðu ættingja. „Eftir því sem þú getur farið til óskyldari einstaklinga þá eru meiri líkur á því að þú getir greint erfðaþætti frá umhverfisþáttum,“ segir Unnur.   Skoðað var hvernig lungnakrabbamein liggur í fjölskyldum og hvort erfðir væru áhrifavaldur. Í ljós kom að jafnvel systkinabörn voru í aukinni hættu á að fá sjúkdóminn en ættgengið var sérstaklega áberandi þegar skoðuð voru tilfelli lungnakrabbameins sem greindust fyrir 60 ára aldur. Reykingar eru langstærsti áhrifaþátturinn en meira en 90 prósent þeirra, sem greinast með lungnakrabbamein, reykja. Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, segir að nú þegar vitað sé að það sé arfgeng tilhneiging að fá lungnakrabbamein, ef menn útsetji sig fyrir skaðvænlegt umhverfi eins og reykingar, megi fara að takast á við sjúkdóminn eins og hvern annan algengan og flókinn erfðasjúkdóm og leita að erfðaþættinum, í þeirri von að hann opni nýja möguleika til að lækna og fyrirbyggja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×