Innlent

Mesta hækkunin til deildarstjóra

Félag leikskólakennara og Launanefnd sveitarfélaga skrifuðu undir kjarasamning í gærkveldi. Ef samningurinn verður samþykktur í atkvæðagreiðslum mun hann gilda til 30. september 2006. Atkvæðagreiðslum þarf að vera lokið fyrir lok janúar. Tveir hópar leikskólakennara munu fá mestar launahækkanir; yngsti hópurinn og þeir sem sinna deildarstjórn. Meðallaunahækkanir deildarstjóra verða um 20 prósent við lok samningstímans. Tekið verður upp allt að tveggja prósenta mótframlag vinnuveitenda vegna séreignarlífeyrissparnaðar. Þá verða gerðir fastlaunasamningar við leikskólastjóra á grundvelli samningsins. Björg Bjarnadóttir, formaður Félags leikskólakennara segir það hafa verið baráttumál lengi og þeim árangri í samningum sé því fagnað. Launakostnaður sveitarfélaga hækkar um rúman milljarð á tímabilinu eða um 13 prósent. Karl Björnsson, formaður saminganefndar Launanefndarinnar segir mikilvægt að samningar hafi náðst í vinsamlegum kjarasamningum, án átaka. Þar hafi skipt máli að ekki var samið undir þeirri formlegu ógn sem fellst í því að félagar hafi boðað til verkfalls. Björg segir samninganefnd leikskólakennara sátt við innihald samningsins, miðað við samningstíma, en vildi lítið tjá sig um hann fyrr en hann verði kynntur fyrir trúnaðarmönnum nú í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×