Innlent

Fátækt aukist á Suðurlandi

Fátækt virðist hafa aukist mest á Suðurnesjum og Suðurlandi miðað við óskir um matargjafir sem borist hafa Hjálparstarfi kirkjunnar fyrir þessi jól. Matarbúr Hjálparstarfs kirkjunnar lítur út eins og vörulager í matvöruverslun en fjöldi fyrirtækja og samtaka gefur þangað matvæli og aðrar gjafir. Þannig gaf Síminn í dag eina milljón króna. Sjálfboðaliðar, meðal annars frá Rauða krossinum, vinna svo að því að raða í poka. Fyrir þessi jól er gert ráð fyrir að um ellefu hundruð matarpokum verði úthlutað frá Hjálparstarfi kirkjunnar innanlands sem er um fimmtán prósenta aukning frá því í fyrra. Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, segist sjá aukningu í umsóknum frá fólki utan Reykjavíkur á undanförnum árum, sérstaklega á Suðurnesjum og Suðurlandi. Fólk á öllum aldri leitar aðstoðar og kveðst Vilborg sjá mikið af ungu ómenntuðu fólki sem dettur inn og út af vinnumarkaðinum sem og einstæðingum. Hún segir sporin til Hjálparstarfs kirkjunnar mjög erfið fyrir allflesta. Reyndar er hún stundum hissa á sumum ungmennum sem biðja um aðstoð, þ.e. þeim sem búa heima hjá foreldrum sínum. „Ég kann ekki alveg við það,“ segir Vilborg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×