Innlent

Gríðarleg hækkun á sundkortum

Afsláttarkort í sundlaugar Reykjavíkur hafa hækkað langt umfram verðlagsþróun á undanförnum árum. Þannig hafa tíu miða barnakort hækkað um 88 prósent en almennt verðlag um 23 prósent. Sundiðkun hefur löngum þótt ein ódýrasta afþreying sem landsmönnum býðst. Gjaldskrá sundlauga Reykjavíkur er meðal þess sem hækkar nú um áramótin en þegar breytingar á henni er skoðaðar fimm ár aftur í tímann sést athyglisverð þróun. Frá 1. janúar greiða börn fyrir staka ferð í sund 110 krónur, fullorðnir 250, tíu miða kort barna munu kosta 750 krónur, tíu miða kort fullorðinna 1900 krónur og árskort fullorðinna 21.500 krónur. Hækkun vísitölu neysluverðs á síðustu fimm árum mælir 23 prósenta hækkun verðlags til samanburðar. Stakir miðar barna eru það eina í gjaldskránni sem hefur hækkað minna eða um tíu prósent. Stakir miðar fullorðinna hækkuðu um 25 prósent, örlitlu meira en verðlagsþróun. Afsláttarkortin hafa hins vegar hækkað langt umfram verðlagsþróun og mest tíu miða kort barna, úr 400 upp í 750 krónur eða um 88 prósent. Tíu miða kort fullorðinna hafa hækkað um 46 prósent og árskort fullorðinna um 43 prósent. Þarna sést greinilega að gjaldtakan hefur verið aukin mest af þeim sem kaupa afsláttarkortin, en það eru væntanlega þeir sem mest stunda sundlaugarnar. Sérstaka athygli vekur gríðarleg hækkun á afsláttarkortum barna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×