Innlent

Flutningabíll fauk út af

Allt stefndi í að Héraðsbúar færu í jólaköttinn þegar stór flutningabíll með tengivagn, lestaður jólamat og jólapökkum til Héraðsbúa, fauk út af þjóðveginum í Lækshrauni fyrir austan Kirkjubæjarklaustur seint í gærkvöldi. Ökumanninn sakaði ekki en undirvagn bílsins stórskemmdist í hrauninu. Fljúgandi hálka var á veginum þegar óhappið varð og bálhvasst. Fyrir einskæra heppni valt bíllinn ekki en að sögn lögreglu hefði hann oltið alls staðar annars staðar í hrauninu, nema einmitt þar sem hann fór út af. Þá hefði góssið dreifst út um allar koppagrundir og vísast fokið út í veður og vind. Kallað var á annan flutningabíl og unnu bílstjórar, bóndi, björgunarsveitarmenn og lögregla að umstöflun á milli bílanna í alla nótt og fram á morgun, að jólaglaðningurinn tók aftur að þokast í átt til viðtakenda sem bíða spenntir austur á Héraði. Þeir varpa nú öndinni léttar yfir því að lenda ekki í jólakettinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×