Innlent

Fólk sem nær ekki endum saman

Margir þeirra sem leita sér aðstoðar hjá Fjölskulduhjálp Íslands nú fyrir jólin er ungt fjölskyldufólk sem hreinlega nær ekki endum saman á laununum sínum, að sögn Ásgerðar Jónu Flosadóttur formanns Fjölskylduhjálparinnar. "Það er síaukin þörf fyrir aðstoð af þessu tagi," sagði hún og sýndi blaðamanni tölvupóst og bréf sem Fjölskylduhjálpinni höfðu borist víðs vegar frá. Þar var undantekningalaust verið að biðja um aðstoð til handa þeim sem hvorki áttu fjármuni fyrir mat né fatnaði. Í sumum tilvikum var beðið um aðstoð fyrir ættingja sem ekki höfðu komið sér til að hafa samband sjálfir. Tiltekin félagsþjónusta hafði meira að segja sent erindi inn þar sem beðið var aðstoðar við fólk í sveitarfélaginu, sem átti tæpast málungi matar eftir hörmungar í einkalífinu en "var fyrir ofan mörk" eins og það var kallað. "Það vill til að Fjölskylduhjálpin á marga velunnara og stuðningsaðila, þannig að við getum sinnt þessum beiðnum," sagði Ásgerður Jóna," því þörfin er víða afar brýn."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×