Innlent

Nær þriðjungur af asískum uppruna

Nýjum Íslendingum af asískum uppruna, sem leita sér aðstoðar hjá Mæðrastyrksnefnd hefur farið stórfjölgandi að undanförnu, að sögn Ragnhildar Guðmundsdóttur formanns nefndarinnar.

"Í þau fjögur ár sem ég hef verið hér hefur þeim farið stöðugt fjölgandi og nú er svo komið að þeir eru nær þriðjungur þeirra sem hingað koma," sagði Ragnhildur. Hún kvaðst hafa miklar áhyggjur af þessari þróun, því oft reyndist fólkið vera skilríkjalaust, tala lítið, stundum ekkert, í íslensku og eigi greinilega í erfiðleikum.

Sem dæmi má nefna föður sem kom með dóttur sinni meðan Fréttablaðið staldraði við. Hann hafði komið áður að sögn Ragnhildar, skilríkjalaus, talaði ekki orð í íslensku en dóttirin sem talaði hrafl túlkaði fyrir hann.

"Ég hef miklar áhyggjur af þessum hópi sem stöðugt fer stækkandi," sagði Ragnhildur. "Ég hef áhyggjur af því hvernig lífi þessu fólki er boðið upp á hér. Mér finnst að stjórnvöld þurfi að fylgjast betur með því og við hvaða kjör og aðstæður það býr. Við hljótum að hafa metnað til að láta því líða vel hér þegar það er einu sinni flutt til landsins."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×