Innlent

Dómur mun falla í Sólbaksmálinu

Félagsdómur hafnaði í gær kröfu Brims um að máli Vélstjórafélags Íslands gegn útgerðinni vegna kjarasamnings sjómanna á Sólbaki yrði vísað frá dómi. Forsvarsmenn Brims sögðu samninginn ekki á vegum fyrirtækisins, heldur sérstaks útgerðarfélags í eigu Brims. Vélstjórafélagið vill að samningurinn verði ógildur með dómi þar sem hann sé málamyndagjörningur. Kjarasamningar við sjómenn á Sólbaki voru gerðir án þátttöku stéttarfélaga og töldu forsvarsmenn þeirra að samningarnir væru nauðasamningar og ógn við almennan samningsrétt. Taldi Vélstjórafélagið að samningarnir væru gerðir til að freista þess að semja um lakari kjör en kveður á um í kjarasamningum sjómanna og útvegsmanna. Helgi Laxdal, formaður Vélstjórafélagsins, segist ánægður með niðurstöðuna. "Okkar málstaður virðist réttur og félagsdómur vill að efnislegur dómur falli." Félagsdómur mun taka mál Vélstjórafélagsins til meðferðar snemma á komandi ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×