Innlent

Ferðin tefst um sinn

Ferð Sæmundar Pálssonar til Japans til að sækja Bobby Fischer, tefst um sinn, vegna óvissu um hvort Fischer verði leystur úr haldi. Taugatitrings virðist gæta meðal japanskra yfirvalda vegna óskar Bandaríkjamanna um að íslensk stjórnvöld dragi til baka boð um að veita honum dvalarleyfi. Til stóð að Sæmundur Pálsson færi utan í dag til að sækja vin sinn Bobby Fischer og fylgja honum til Íslands, en ljóst er að tafir verða á þeim áformum, að minnsta kosti í einn dag eða jafnvel nokkra daga. Sæmundur segir að lögfræðingur Fischers hafi átt að funda með japanska útlendingaeftirlitinu um málið á flugvellinum í Tokýó, en þegar þangað hafi verið komið, hafi honum verið tjáð að málið væri komið til höfuðstöðva útlendingaeftirlitsins inni í Tokýó-borg. Sæmundur segir að ósk Bandaríkjamanna um að Íslendingar drægju tilboð sitt til baka hafi gert Japanana hrædda og þeir hafi ekki þorað að afgreiða málið. Sæmundur segist hafa rætt málið í dag við settan sendiherra Íslands í Japan, sem fylgist vel með framvindu málsins, en það gangi afar hægt. Hann segir að við því hafi verið að búast að svona færi. Því hefði það ekki verið skynsamlegt að fara að ana út, jafnvel þó að Fischer vilji koma og kærasta hans. Það verði að fá hann lausann fyrst og málið frestist um sólarhring hið minnsta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×