Innlent

Ófaglærðir skrá sig veika

Tæplega 40 ófaglærðir starfsmenn á fjórum af sex leikskólum hjá Ísafjarðarbæ skráðu sig veika og mættu ekki til vinnu í gær til að mótmæla seinagangi í greiðslum í framhaldi af starfsmati hjá sveitarfélögunum. Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði, segir að um ólöglega aðgerð sé að ræða. Vinnu við starfsmatið var lokið 21. nóvember og fengu sveitarfélögin niðurstöðuna 26. nóvember. Málið átti að vera frágengið fyrir 1. desember en ekki er búið að greiða eftir því nema hjá örfáum sveitarfélögum. Hjá Ísafjarðarbæ nær starfsmatið til 181 starfsmanns, eða 360 nafna þar sem starfsmatið nær aftur til 1. desember 2002 og tekur einnig til starfsmanna sem flust hafa milli starfa og hætt störfum. Bærinn hefur frest til 31. mars til að ganga endanlega frá greiðslum. "Starfsfólkið er skiljanlega þreytt á því hve hægt þetta hefur gengið," segir Halldór. "Ef fólk er veikt þá er það veikt en það liggur fyrir að þetta eru samantekin ráð."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×