Innlent

Japanskir embættismenn smeykir

Enn er ekki ljóst hvort og hvenær Bobby Fischer kemur til landsins. Töluverðs taugatitrings gætir meðal japanskra embættismanna vegna beiðni Bandaríkjamanna um að boð um dvalarleyfi hér á landi verði dregið til baka, segir Sæmundur Pálsson, vinur Fischers.  Lögfræðingur Bobbys Fischers átti fund með fulltrúum útlendingastofnunar í Japan fyrir hádegi að íslenskum tíma, þar sem formlega var óskað eftir því, að ef Fischer verði vísað úr landi, þá verði honum vísað til Íslands en ekki Bandaríkjanna. Þar fékk lögfræðingurinn að vita að málið hafi verði flutt á forræði utanríkisráðuneytisins í Tókyó. Ábendingar bandarískra stjórnvalda til íslenskra ráðamanna þess efnis, að réttast væri að draga tilboð um dvalarleyfi handa Fischer til baka, hefur vakið athygli fjölmiðla víða um heim. Fjallað er um það, sem í fréttaskeytum er kallað þrýstingur Bandaríkjastjórnar, sem sagt er að sé hreint ekki hrifin af því að Fischer standi til boða að koma hingað til lands. Sæmundur Pálsson, vinur Fischers, sem bíður eftir því að fara út að sækja hann, segir að vart hafi orðið töluverðs taugatitrings meðal japanskra embættismanna vegna þrýstings bandaríkjamanna. Hann segir þetta orðið mikið mál vegna aðkomu Bandaríkjamanna og því hafi málið verið flutt til japanska utanríkisráðuneytisins í Tókyó. Lögfræðingur Fischer verði þar að panta viðtal og ljóst sé að verið sé að tefja málið, því að Japanir þori ekki að afgreiða málið út af neitun Bandaríkjamanna. Það sé þó ekki þar með sagt að Fischer verði ekki sleppt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×