Innlent

Lítið var um áfallahjálp

Þrjátíu ár eru í dag frá því að snjóflóðin féllu á Neskaupstað og tólf manns fórust. Einn þeirra sem missti ættingja í flóðunum segir áfallahjálp nauðsynlega, en lítið var um slíkt á þessum tíma. Snjóflóðin sem féllu á Neskaupstað voru 2 og féllu einkum á Fiskimjölsverskmiðjuna, steypustöð, bifreiðaverkstæði og bíla, en einnig á eitt íbúðarhús. Tólf manns týndu lífi, en allt að 20 klukkustundum eftir flóðið fundust menn á lífi. Kristján Tryggvi Högnason var tólf ára þegar þetta gerðist, en faðir hans var staddur í Fiskimjölsverksmiðjunni. Hann var heima hjá sér og varð ekki var við flóðin, en frétti fyrst af því þegar vinkonur systur hans komu og létu vita af slysinu. Lík föður hans fannst ekki fyrr en rúmum 20 tímum eftir að flóðið féll. Kristján segir biðina eftirminnilegasta af því sem þarna átti sér stað. Hann segist lengi hafa haldið í vonina um að faðir hans væri á lífi, enda hafi fólk verið að finnast á lífi lengi á eftir. Að sögn Kristjáns kom sóknarpresturinn heim til fjölskyldunnar og fólk sýndi hlýju, en að öðru leyti hafi ekki verið unnið með þá sem áttu um sárt að binda. Hann hafi orðið þess var 20 árum eftir slysið þegar hann var beðinn um að halda fyrirlestur á vegum samtaka um sorg og sorgarviðbrögð, hvað hann hafði unnið lítið úr þessari reynslu, en einbeitt sér að því í framhaldinu. Á þessum tíma var ekki áfallahjálp eins og nú þekkist og segir Kristján slíka hjálp nauðsynlega. Það sé mjög mikilvægt að fagfólk komi að ferlinu og muni hve langan tíma tekur að vinna úr hlutum sem þessum og því þurfi bakstuðning lengi á eftir. 20 árum eftir snjóflóðin missti Kristján föðurbróður sinn í snjóflóði í Tungudal við Ísafjörð og hann segir þann atburð hafa kippt sér aftur um 20 ár og eins snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri og þar hafi biðin farið verst með sig. Hann segist kippast við enn þann dag í dag þegar hann heyrir fregnir af snjóflóðum. Hann segir að sárin grói aldrei alveg og opnist á ný við streitu og erfitt sé að klára að vinna úr þessu að fullu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×