Innlent

Verðið aldrei hærra

Fasteignaverð hefur aldrei verið hærra, aldrei hafa jafn margar fasteignir skipt um eigendur og nýbyggingar spretta upp. Fátt virðist þó benda til þess að verðið lækki í bráð og sérfræðingar spá því að fasteignir geti hækkað enn frekar í verði. Vísitala fasteignaverðs samkvæmt tölum frá Fasteignamati Ríkisins hefur hækkað mikið undanfarna mánuði. Umræða um að verð hljóti að lækka hefur verið í gangi og ekki bara síðustu mánuði, heldur ár, en Björn Þorri Viktorsson, formaður félags fasteignasala, býst þó ekki við neinu slíku. Hann segir að stór skref hafi verið tekin í þróun á framboði af lánsfé. Við höfum færst í átt að því sem gerist í nágrannalöndunum og engum detti þar í hug að hrun sé framundan. Á sama tíma hefur verðmunur á milli hverfa aukist og til dæmis er allt að þrefaldur munur á fermetraverði í dýrustu og ódýrustu hverfum borgarinnar. Björn Þorri segir að víða erlendis sé munurinn allt að tífaldur. Hann sér ekki fyrir sér að fasteignaverð lækki í bráð og tekur þar undir með sérfræðingum hjá Greiningu Íslandsbanka um að það gæti haldið áfram að hækka á næstu mánuðum. Hann segir mjög gott framboð á lánsfjármagni og ekkert sé í spilunum um að annað sé framundan, þo að eflaust verði hækkunin ekki jafnmikil og verið hefur. Hann segir þetta mat sitt ekkert hafa með það að gera að hann sjálfur sé fasteignasali.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×