Innlent

Landið minna en talið hefur verið

Ísland er þrjú hundruð ferkílómetrum minna en fullyrt hefur verið, en strandlengjan er sextán hundruð kílómetrum lengri en talið var. Þar með eru kennslubækur, kort og ýmsar aðrar upplýsingar úreltar að sögn framkvæmdastjóra Loftmynda sem hafa mælt landið af mikilli nákvæmni. Það eru ýmsir hlutir sem maður gengur út frá að séu staðreynd og óhrekjanlegir, eins og til dæmis opinber stærð landsins, flatarmál þess og lengd strandarinnar og fleira þess háttar. En svo er greinilega alls ekki, því Ísland er ekki af þeirri stærð sem haldið hefur verið fram. Arnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Loftmynda segir að samkvæmt nýjum mælingum sé landið 102 þúsund og 700 ferkílómetrar en ekki 103 þúsund eins og talið hafi verið. Sem betur fer sé strandlengjan þó mun lengri en ætlað hafi verið áður, eða 6400 kílómetrar í stað 4700 eins og talið var áður. 300 ferkílómetra svæði á Reykjanesi er það sem vantar á Ísland miðað við þessar nýju upplýsingar. Arnar segir opinberar tölur og kort byggjast á gömlum og úreltum upplýsingum, en hann segir hins vegar að þær upplýsingar sem Loftmyndir byggi sín kort á, séu gríðarlega nákvæmar. Þetta þýðir þá væntanlega að kennslubækur, kort og ýmislegt fleira sé úrelt og rangt. Arnar segir svo vera og almennt þurfi að endurnýja opinberar upplýsingar um stærð og gerð landsins. Arnar segir að kort sem Landmælingar Íslands gefa út séu því röng, enda upplýsingarnar sem þau byggist á rangar. Samkvæmt lögum um Landmælingar Íslands þurfa þeir sem gera kort eða vinna landupplýsingar að tilkynna stofnunni um það. Arnar segir að Loftmyndir hafi ekki rækt þá skyldu sína, enda sé um að ræða úreltar reglur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×