Innlent

Viðbúnaðurinn vegna brunalyktar

Talsmaður British Airways segir vinnureglu að viðhafa ítrustu varúðarráðstafanir þegar eitthvað bregður út af í flugi hjá félaginu og því hafi nokkur viðbúnaður verið á Heathrow-flugvelli síðasta föstudagskvöld vegna vélar sem í voru íslenskir þingmenn og ráðherra. "Flugáhöfnin í flugu BA735 frá Genf til London varð vör við rafmagnsbrunalykt í stjórnklefanum. Til öryggis var slökkvilið kallað til og látið mæta vélinni," sagði Anthony E. Cane, upplýsingafulltrúi British Airways, og bætti við að þar væri um að ræða staðalviðbrögð. Hann tók fram að vélin hefði lent heilu og höldnu, en yrði vandlega yfirfarin áður en hún færi í loftið aftur. Björgvin G. Sigurðsson, einn íslensku þingmannanna sem um borð voru, sagði farþega hafa fengið litlar sem engar upplýsingar um atvikið frá British Airways og furðaði sig nokkuð á því þar sem nokkrum hefði verið brugðið. Auk Björgvins voru í vélinni Sigurður Kári Kristjánsson, Birkir Jón Jónsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Gunnar I. Birgisson og Geir H. Haarde fjármálaráðherra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×