Innlent

Ekki herlaust land?

Er hið herlausa Ísland kannski alls ekkert herlaust þegar allt kemur til alls? Þessari spurningu er velt upp í erlendum stórblöðum í dag í ítarlegri umfjöllun um íslensku friðargæslusveitina. „Skaddaðar hugsjónir Íslands," segir í fyrirsögn í stórblaðinu International Herald Tribune í dag. Fréttin sem birtist á forsíðu blaðsins birtist einnig í New York Times í dag og bar þar fyrirsögnina: „Óróleiki á Íslandi vegna friðargæslumanna í herklæðum." Í greininni er rakið hvernig sjálfsmorðsárásin í Kabúl í Afganistan hafi hrist upp í hinum friðelskandi Íslendingum sem hafi stórlega brugðið við að sjá friðargæslumennina sína í fullum herklæðum og með alvæpni. Blaðamaðurinn ræðir við nokkra málsmetandi Íslendinga, rekur ástæður þess að Ísland er herlaust land og segir að landsmenn haldi stíft í sína friðelskandi ímynd. Árásin í Kabúl hafi því orðið til þess að Íslendingar hafi lagst í mikla og óvanalega naflaaskoðun og blaðamaðurinn spyr hvort það geti verið að Ísland sem hingað til hefur forðast að blanda sér í vopnuð átök í útlöndum sé að breytast og hvort íslensku friðargæsluliðarnir séu í raun og sanni réttir og sléttir hermenn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×