Innlent

Látinn laus

Maðurinn sem varð Ragnari Björnssyni að bana á veitingastað í Mosfellsbæ fyrr í mánuðinum, var látinn laus í dag. Hæstiréttur felldi gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms úr gildi. Hálfþrítugur karlmaður var handtekinn eftir að hafa slegið til Ragnars á veitingastaðnum Ásláki aðfaranótt 12. desember og úrskurðaður í gæsluvarðhald til 16. desember. Þann dag fór lögreglan fram á að hann yrði úrskurðaður í 6 vikna gæsluvarðhald til viðbótar með tilliti til almannahagsmuna og varð Héraðsdómur Reykjavíkur við því og taldi fram kominn rökstuddan grun um að maðurinn hefði framið brot sem gæti varðað allt að 16 ára fangelsi. Maðurinn kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem felldi hann úr gildi í dag. Í dómi Hæstaréttar segir að ekki sé ástæða til að hafa manninn í haldi vegna rannsóknarhagsmuna og lögreglu hafi ekki tekist að færa viðhlítandi rök fyrir því að hafa manninn í gæsluvarhaldi vegna almannahagsmuna. Manninum var því sleppt úr haldi í dag. Réttum mánuði fyrir þann verknað sem hér um ræðir, varð skoskur karlmaður dönskum hermanni að bana í Keflavík. Hann var látinn laus skömmu síðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×