Innlent

Þjónustugjöld eru líka að hækka

Gjöld fyrir ýmiss konar þjónustu á vegum borgarinnar hækka umtalsvert um áramót. Borgarstjóri varði hins vegar útsvarshækkun með því að álögur á fjölskyldufólk muni ekki hækka. Reykjavíkurborg mun frá áramótum leggja hámarksútsvar á þegna sína en slíkt hefur aðeins gerst einu sinni áður frá því núverandi skattkerfi var tekið upp, árið 2002. Útsvarið verður 13,03% en er 12,7% nú. Það getur því munað tugum þúsunda á skattgreiðslum þeirra sem búa til dæmis á Seltjarnarnesi eða í Reykjavík. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri, sagði í viðtali á Stöð 2 þegar hækkunin var tilkynnt þann 3. desember að þjónustugjöld í Reykjavík væru í lágmarki ólíkt öðrum sveitarfélögum eins og til dæmis á Seltjarnarnesi. Yfirvöld í Reykjavík kysu að hækka frekar útsvarið heldur en þjónustugjöld, enda kæmi slíkt sér verr fyrir fjölskyldufólk í borginni. Þrátt fyrir þessi orð borgarstjóra er ljóst að margir flokkar þjónustugjalda í borginni hækka umtalsvert um áramót. Sorphirðugjald hækkar um tæplega 30%. Á móti kemur að þeir sem samþykkja að tunnurnar verði tæmdar aðeins á hálfsmánaðar fresti fá 50% afslátt. Þá hækkar holræsagjald einnig um 0,5%. Gjaldið fyrir börn á frístundaheimilum hækkar um 10%, úr 6500 krónum í 7150 krónur. Leikskólagjöld hækka að meðaltali um 3,1%, mismunandi eftir flokkum, ekkert hjá sumum, en meira hjá öðrum, eins og til dæmis námsmönnum.. Þá hækkar gjaldið í sund um tæp 9%, og einnig leiga á sundfötum og handklæðum. Þeir sem þurfa á heimaþjónustu að halda þurfa að borga 500 krónur fyrir hverja vinnustund, í stað 350 krónum áður, en það er hækkun um 43%. Þeir eru undanþegnir gjaldskyldu sem sem hafa ekki aðrar tekjur en frá Tryggingastofnun. Akstur í félasstarf hækkar um 47%, úr 150 krónum í 220 krónur. Þá hækkar einnig gjald fyrir kaffi og meðlæti í félagsstarfi og fyrir heimsent fæði á bilinu 3,3% og upp í 3,6%. Æskulýðsstarf í Öskuhlíðarskóla og Langholtsskóla hækkar um 7%. Í athugasemdum segir að gert sé ráð fyrir 3,2% verðbólgu og að gjaldskrár myndu í heild ekki hækka umfram það. Ekki reyndist unnt að fá upplýsingar fyrir fréttir um hversu miklu fé hækkun á þjónustu skilar borginni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×