Innlent

Ljósin verða á um áramótin

Götuljós verða ekki slökkt í Reykjavík um áramótin. Af slíku ástandi gæti skapast hætta og tími til undirbúnings þótti of skammur.  Upphafleg hugmynd var sú að slökkt yrði á öllum götuljósum í Reykjavík og nágrenni frá klukkan hálftólf fyrir miðnætti til klukkan hálfeitt svo að njóta mætti enn betur ljósadýrðarinnar þegar gamalt ár yrði skotið upp. Eftir samráðsfund lögreglunnar í Reykjavík, slökkviliðs borgarinnar, Gatnamálastofu og Orkuveitunnar var hins vegar horfið frá hugmyndinni þar sem of lítill tími þótti til undirbúnings. Sif Gunnarsdóttir, verkefnastjóri viðburða hjá Höfuðborgarstofu, segir að lögreglan hafi haft áhyggjur af því að öryggi borgaranna yrði í enn meiri hættu en ella á tímapunkti sem væri hættulegur fyrir, enda víða fjöldi fólks saman kominn með áfengi um hönd að skjóta upp flugeldum. Ef taka ætti upp á því að slökkva öll götuljós borgarinnar í klukkustund um áramótin yrði að undirbúa slíkt gríðarlega vel og hugmyndin hafi einfaldlega komið of seint til þess að svo mætti verða. Rætt hafi verið um að stytta tímann sem ljósin yrðu slökkt, en lögreglu hafi einfaldlega þótt tími til undirbúnings of knappur. Eftir að niðurstöður samráðsfundarins voru sendar í ráðhús Reykjavíkur sendu borgaryfirvöld svo frá sér formlega neitun um möguleikan á því að slökkva götuljósin í borginni á miðnætti á gamlárskvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×