Innlent

Friðargæslan í New York Times

Erlend stórblöð fjalla ítarlega um það í dag hvort íslenska friðargæslan sé ígildi hers á hinu friðsama og herlausa Íslandi. „Hugsjón Íslendinga hefur beðið hnekki“ segir í stórri forsíðufyrirsögn í stórblaðinu International Herald Tribune í dag og sama grein birtist einnig í New York Times í dag undir fyrirsögninni: „Óróleiki á Íslandi sökum herklæddra friðargæslumanna“. Það er blaðamaður New York Times sem skrifar eftir heimsókn hingað til lands þar sem tilgangurinn er að kanna það hvort íslenska friðargæslan jafngildi her. Tilefnið er sjálfsmorðsárásin á íslensku friðargæsluliðana í Kabúl í Afganistan í október þar sem afgönsk stúlka og bandarísk kona fórust. Í greininni segir meðal annars að Íslendingum hafi brugðið þegar í ljós kom að friðargæsluliðarnir stunda störf sín gráir fyrir járnum enda brjóti það í bága við hugmyndir Íslendinga um borgaralega stöðu þessara manna. Í kjölfarið hafi þessi litla friðsama þjóð lagt í mikla og óvanalega sjálfsskoðun. Getur verið að Ísland, sem hingað til hefur forðast að blanda sér í vopnuð átök á erlendri grund, sé smátt og smátt að breytast og friðargæsluliðarnir séu í raun og sanni hermenn?, spyr blaðamaðurinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×