Sport

Félagarnir vilja framlengingu

Dagar Luis Figo hjá liði Real Madrid þurfa ekki endilega að vera taldir þrátt fyrir að stjórn liðsins hafi ítrekað að samningur kappans verði ekki framlengdur. Zinedine Zidane, félagi Figo, hefur nú óskað eftir að þessi ákvörðun verði endurskoðuð enda sé Figo atvinnumaður fram í fingurgóma og hafi sannarlega unnið fyrir því. Engum blöðum er um það að fletta að Figo hefur leikið vel í síðustu leikjum Real og hafa margir lagt saman tvo og tvo enda er óhætt að fullyrða að allar götur síðan hann kom frá Barcelona hefur kappinn aldrei sýnt þá forystu og hæfileika með Real sem gerðu hann að átrúnaðargoði milljóna í Katalóníu. Telja margir að hann sé loks að sjá að sér þegar afar vænlegur samningur hans er á enda kominn en muni falla í sömu meðalmennskugryfju aftur um leið og framlengdur samningur er í höfn. Í síðustu leikjum hefur hann þó aldrei þessu vant verið atorkusamur og á köflum sýnt takta sem gerðu hann að besta knattspyrnumanni Evrópu fyrir örfáum árum. Í húfi er jú samningur sem talinn er gefa honum tæpar tíu milljónir króna í viku hverri en verði hann látinn fara verður hann fyrsta stórstjarna liðsins sem tekur pokann sinn án þess að liðið kæri sig um krónu fyrir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×