Erlent

Nýr kafli í friðarferlinu

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra vonast til þess að með fráfalli Arafats hefjist nýr kafli í friðarferlinu fyrir botni Miðjarðarhafs. Andlát Arafats feli í sér ný tækifæri. Jasser Arafat, leiðtogi Palestínumanna, lést í nótt eftir hálfs mánaðarlanga sjúkrahúslegu þar sem heilsu hans hefur hrakað jafnt og þétt. Arafat, sem var sjötuíu og fimm ára, var úrskurðaður látinn klukkan hálf þrjú í nótt vegna almennrar líffærabilunar en hann hafði legið í dái síðustu daga. Lík hans verður nú flutt til Kaíró í Egyptalandi og þar mun opinber útför hans fara fram á morgun. Stjórnvöld í Ísrael vilja ekki að Arafat verði jarðsettur í Jerúsalem eins og yfirvöld í Palestínu og Arafat vildi reyndar sjálfur. Dómsmálaráðherra Ísraels lýsti því yfir að Jerúsalem væri greftrunarstaður ísraelskra konunga en ekki palestínskra hryðjuverkamanna. Arafat verður hins vegar jarðsettur í höfuðstöðvum sínum á Ramallah á laugardag. Stjórnvöld í Palestínu hafa lýst yfir fjörutíu daga sorgartímabili. Íslensk stjórnvöld hafa vottað palestínsku þjóðinni samúð sína en Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir að fráfall Arafats hafi ekki komið á óvart. Hann hafi hitt forsetann fyrir 2-3 þremur árum og þá hafi hann verið orðinn mjög sjúkur. Halldór segir lífshlaup Arafats samofið palestínsku þjóðinni og baráttu hennar fyrir frelsi og sjálfstæði. „Hann var afskaplega merkilegur maður sem leitt hefur þessa baráttu í langan tíma. Það er ljóst að með fráfalli hans skapast tómarúm en jafnframt á að skapast tækifæri til að koma friðarferlinu af stað á ný því sumir hafa haldið því fram að hann hafi staðið í vegi fyrir því. Um leið og við látum í ljós sorg yfir því að Arafat sé fallinn frá þá er rétt að bera þá von í brjósti að nú hefjist nýr kafli í friðarferlinu, og þar eru það að sjálfsögðu Bandaríkjamenn sem geta skipt sköpum,“ segir Halldór.     Arafat hefur leitt sjálfsstæðisbaráttu Palestínumanna í meira en fjörutíu ár og á þeim tíma hafa margir Íslendingar sótt hann heim, þar á meðal a.m.k. tveir ráðherrar: Steingrímur Hermannsson, þáverandi forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson. Um kynni sín af Arafat segir Halldór að hann hafi verið afar  vingjarnlegur og góðlegur maður sem gott var að tala við. „Hann var einlægur, greinilega mikill hugsjónamaður, þannig að ég hef ágætar minningar frá okkar fundi,“ segir Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×