Sport

Háspenna fyrir lokaumferðina

Noregur nötrar af taugaspennu fyrir morgundaginn, laugardaginn 30. október en þá ræðst hvort samfelld 12 ára sigurganga Rosenborgar í norsku knattspyrnunni verði loks rofin þegar lokaumferð efstu deildarinnar þar í landi verður leikin. Rosenborg sem hefur unnið norska meistaratitilinn samfellt síðan 1992 er nú hnífjafnt Árna Gauti Arasyni og félögum í Vålerenga að stigum fyrir lokaumferðina og er markatala liðanna meira að segja jöfn líka. Rosenborg hefur þar reyndar forskot með fleiri mörk skoruð eða 48 mörk gegn 37 mörkum hjá Vålerenga. Tryggi Rosenborg sér norska titilinn á morgun 13. árið í röð jafnar félagið Evrópumet Skonto Riga frá Lettlandi sem reyndar getur unnið sinn 14. Lettlandsmeistaratitil í röð þegar deildinni lýkur þar í landi 11. nóvember n.k. Rosenborg sem ákvað í síðustu viku að framlengja ekki samning þjálfarans Ola By Rise sem tekur pokann sinn hvernig sem fer á laugardag, mætir Lyn sem er í 5. sæti á sama tíma og Vålerenga mætir Veigari Páli Gunnarssyni og félögum í Stabæk sem er í fallbaráttunni. Það yrði óneitanlega sæt "hefnd" fyrir Árna Gaut að ná að hampa titlinum með Vålerenga á morgun og rjúfa þar með sigurgöngu Rosenborgar sem hann lék áður með. Rosenborg hafði hins vegar ekki not fyrir íslenska landsliðsmarkvörðinn en eins og kunnugt er lék Árni Gautur í marki Noregsmeistaranna í rúm 5 ár áður en hann missti sæti byrjunarliðssæti sitt í liðinu í fyrra. En dæmið er einfalt, það lið sem vinnur stærri sigur á morgun, Vålerenga eða Rosenborg hampar norska titlinum, þ.e.a.s. fari svo að bæði lið vinni sína leiki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×