Sport

Funda með Kostic um helgina

Eins og við greindum frá fyrr í vikunni eru Grindvíkingar að missa þolinmæðina gagnvart Guðjóni Þórðarsyni og farnir að skoða aðra þjálfara. Þeir standa við þau orð en þeir hafa sett sig í samband við Lúkas Kostic og ætla að funda með honum um helgina. Kostic hefur þjálfað 4. flokk KR síðustu tvö ár en hann þjálfar einnig U-17 ára landslið Íslands. "Ég er búinn að setja mig í samband við KR þar sem hann er samningsbundinn félaginu og málið er allt á byrjunarstigi," sagði Jónas Þórhallsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, við Fréttablaðið í gær en hann ætlaði að funda með Kostic í gær en sá fundur datt upp fyrir vegna anna hjá Kostic. Þeir stefna aftur á móti af því að hittast um helgina og fara yfir málin. Guðjóni Þórðarsyni hefur verið gerð grein fyrir stöðu mála en Jónas gerði það fyrr í vikunni. "Ég sagði við Guðjón í vikunni að bakhjarlarnir væru orðnir óþolinmóðir og vildu ekki bíða mikið lengur eftir honum. Því yrði ég að fara að skoða aðra möguleika," sagði Jónas en hver voru viðbrögð Guðjóns við þessum fyrirætlunum? "Hann gat náttúrulega ekkert sagt enda sjálfur á fullu úti í Bretlandi. Hann sagðist ekkert geta gefið okkur svar eins og staðan var því hann væri ekki búinn að gefa það frá sér að fá vinnu í Englandi. Hann er samt enn inn í myndinni á meðan við höfum ekki ráðið neinn í starfið. Lúkas vill skoða málin með okkur og við stefnum að því að setjast niður um helgina."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×