Sport

Skítug vinnubrögð Chelsea?

Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea er nú harðlega gagnrýnt í Englandi vegna meðferðar félagsins á rúmenska landsliðsfyrirliðanum, Adrian Mutu sem leystur var undan samningi við félagið á föstudagsmorgun. Mutu á nú yfir höfði sér leikbann eftir að hafa fallið á lyfjaprófi eins og frægt er orðið en prófið var ekki framkvæmt af handahófi eins og algengast er heldur var rúmenski sóknarmaðurinn skikkaður í það af Chelsea eftir að grunsemdir vöknuðu hjá félaginu um að leikmaðurinn hefði óhreint mjöl í pokahorninu. Chelsea greiddi ítalska liðinu Parma 15,8 milljónir punda fyrir Mutu í fyrra sem félagið virðist nú skyndilega reiðubúið að afskrifa. Í yfirlýsingu frá Chelsea á fimmtudag sagði að það væri stefna hjá félaginu að misnotkun lyfja sé ekki liðin og verði hvaða leikmaður sem uppvís verði um slíkt athæfi látinn tæma skápinn sinn á Stamford Bridge. Gordon Taylor, framkvæmdastjóri ensku leikmannasamtakanna sakar Chelsea um að hafa misnotað sér tækifæri sem þarna gafst til að losa sig við leikmanninn en Mutu var ekki í náðinni hjá Jose Mourinho knattspyrnustjóra félagsins. Þá eru Netiðlar sem fjalla um knattspyrnu á Englandi flestir með forsíðuumfjöllun vegna málsins og þar er m.a. gengið það langt að segja að aðrir leikmenn Chelsea, rótgrónir menn eins og Frank Lampard og John Trery hefðu fengið öðruvísi meðferð hjá félaginu en Mutu þrátt fyrir yfirlýsta lyfjastefnu Chelsea. "Þetta er ekki stefna sem við í leikmannasamtökunum erum hrifnir af. Skylda Chelsea er að hugsa um sína leikmenn. Við viljum að félög sýni áhuga á andlegri og samfélagslegri velferð starfsmanna sinna. Það er fjöldi dæma um að félög kjósi frekar að hjálpa leikmönnum sínum sem svipað er ástatt um frekar en að láta þá fara." sagði Taylor í viðtali við BBC á föstudag. Mourinho gefur lítið fyrir skoðanir Taylor. "Taylor fær borgað fyrir að sinna starfi sínu vel en hann hefur ekki hundsvit á því hvað gengur á hér hjá Chelsea." sagði hinn roggni Mourinho við BBC. Talið er að Mutu fái 6 mánaða bann og er ekki útséð með framtíð leikmannsins sem knattspyrnumaður en þekkt er að félög vilja ekki láta bendla sig við leikmann sem hefur látið grípa sig fyrir kókaínneyslu. Ástralski markvörðurinn Mark Bosnich var rekinn frá Chelsea í fyrra eftir að hafa fallið á lyfjaprófi vegna kókaínneyslu eins og Mutu og hefur hann ekki ennþá fundið sér félag til að leika með.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×