Sport

Ásgeir bað mig afsökunar

Það hefur gustað um Fylki síðustu daga og margir hafa líkt atburðum síðustu daga við sápuóperu. Ásakanir um lygar hafa gengið á milli formanns meistaraflokksráðs félagsins og tveggja leikmanna og var skotið svo fast að margir töldu að seint myndi gróa um heilt. Það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti í gær þegar Fylkir tilkynnti að þeir hefðu gert nýjan samning við Sævar Þór Gíslason. Samningurinn er sá sami og hann samþykkti að skrifa undir síðastliðinn laugardag en vildi síðan ekki sjá á sunnudeginum. Sannarlega óvæntur kafli í þessari sápuóperu. "Það sem gerðist á miðvikudeginum var að Þorlákur þjálfari kom og talaði við mig og sagðist ekki vera sáttur með það að ég væri að fara frá félaginu," sagði Sævar Þór aðspurður um hvað hefði breyst á svo skömmum tíma. "Hann bað mig um að endurskoða ákvörðun mína og ég sagði að það þyrfti ýmislegt að breytast til þess að ég færi aftur að tala við félagið. Þeir hringdu síðan í mig og við töluðum saman. Þeir báðust í kjölfarið afsökunar á öllu og sama gerði ég. Ég þurfti samt ekkert að afsaka neitt." Sævar skrifaði svo undir samninginn sem hann hafði samþykkt á laugardaginn en hafnað á sunnudaginn. Hann er til tveggja ára. "Ég fór bara betur yfir stöðuna og hugsaði um hag félagsins. Árangurinn í fyrra var ekkert til að hrópa fyrir og mér finnst ég skulda félaginu betra tímabil en ég bauð upp á síðasta sumar. Ég vil gera betur fyrir félagið," sagði Sævar sem er ánægður með sinn hlut í málinu. "Við erum búnir að grafa stríðsöxina og það er búið að segja mér að ég sé maður að meiri fyrir að hafa gert þetta. Ég ber engan kala til stjórnarinnar og er bara mjög sáttur. Mér finnst leiðinlegt að þetta hafi farið út í svona vesen því það átti aldrei að gera það." Ásgeir Ásgeirsson, formaður meistaraflokksráðs Fylkis, vildi lítið tjá sig um málið en var feginn að því var lokið. "Við báðumst bara báðir afsökunar hvor til annars ef við höfum sagt eitthvað særandi," sagði Ásgeir en hann vildi lítið tjá sig um þá afstöðu Sævars að hann hefði ekki þurft að biðjast afsökunar á neinu. "Ég ætla ekkert að vera að munnhöggvast í blöðunum um þetta. Við erum búnir að ná sáttum og það er bara frábært. Þetta er búið að vera hundleiðinlegt og ég er feginn að þessu máli er lokið." Þar sem sáttir hafa náðst við Sævar spyrja Fylkismenn sig að því hvort möguleiki sé á að ná sáttum við Þórhall Dan Jóhannsson? Ásgeir sagðist ekkert vilja tjá sig um hvort sá möguleiki væri fyrir hendi en Þórhallur hefur ekki vandað Ásgeiri kveðjurnar í fjölmiðlum síðustu daga og það hjálpar eflaust lítið til. Ásgeir sagði engan fund skipulagðan með Þórhalli. Ámundi Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar Fylkis, er aftur á móti farinn í málið á fullum krafti og hann fundaði með Þórhalli í gærkvöld í þeirri von að lægja öldurnar. "Við ætlum aðeins að fara yfir málið og mér finnst sjálfsagt að ræða málin í rólegheitum. Hvað verður veit ég samt ekkert um," sagði Ámundi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×