Sport

Langefstur af Íslendingunum

Páll Kristinsson hefur farið á kostum í fyrstu fjórum leikjum Njarðvíkurliðsins í vetur en alla leikina hefur liðið unnið með meira en tuttugu stiga mun, fyrstir liða í sögu úrvalsdeildarinnar. Páll er stigahæstur hjá Njarðvíkurliðinu með 21,1 stig að meðaltali og er sá Íslendingur í deildinni sem hefur lagt langmest til síns liðs í fyrstu fjórum umferðum Intersportdeildarinnar. "Liðsheildin er búin að vera mjög góð hjá okkur og þar skiptir það miklu máli að við byrjuðum á því að fara í æfingaferð til Danmerkur fyrir tímabilið sem tókst mjög vel. Við fórum út með stóran hóp og vorum auk þess mikið saman í fjáröflun fyrir ferðina í sumar. Það hefur verið mikið bil á milli þeirra eldri og yngri hjá okkur í gegnum tíðina og það hefur náð að brúast með þessari ferð og því hve við höfum náð að vera mikið saman. Við leikmennirnir höfum líka ákveðið það í sameiningu að gera þetta að skemmtilegu tímabili með því að gera það sjálfir skemmtilegt," segir Páll. Njarðvíkurliðið hefur spilað mjög hraðan bolta það sem af er tímabili og Páll játti því að það hentaði honum vel. "Ég nýt mín vel í hröðum bolta og það hefur æxlast þannig að ég er mikið opinn. Í næsta leik getur vel verið að það verði einhver annar. Við erum með breiðan og góðan hóp og það eru allir að skila sínu, allt frá útlendingnum til ungu strákanna. Við erum með gott lið og vorum mjög heppnir með Bandaríkjamanninn Matt Sayman. Hann er gull af manni, spilar frábæra vörn og leggur sig alltaf fram. Síðan er Brenton Birmingham í feiknaformi og það hjálpar okkur. Vörnin hefur verið góð og það hefur gert það að verkum að sigrarnir hafa orðið svona stórir " sagði Páll. Páll æfði með landsliðinu í sumar og hann sagði aðspurður að það ætti sinn þátt í því að hann væri jafngóðu formi og raun ber vitni. "Það voru góðar æfingar í sumar og öflugir mótherjar og það gerði manni eflaust gott," sagði Páll. Hann sagði að Einar Árni Jóhannsson, þjálfari liðsins, sem er að stýra liði í fyrsta sinn í efstu deild karla, hefði haldið vel utan um liðið. "Hann hefur staðið sig mjög vel og ég hef ekki orðið var við neitt reynsluleysi. Hann hefur auðvitað reynslu af því að stýra liðum í stórum leikjum úti eftir að hafa verið með unglingalandsliðið." Hann sagðist eiga vona á meiri mótspyrnu frá andstæðingum Njarðvíkur í næstu leikjum og hræddist það ekki. "Þessir leikir okkar hafa alls ekki verið léttir. Við höfum komið sterkir upp í lokin og klárað marga leiki þá. Deildin er mjög sterk og það eru fullt af erfiðum leikjum framundan. Við ætlum okkur hins vegar að taka alla titla sem í boði eru - það þýðir ekkert annað," sagði Páll en Njarðvíkingar hafa ekki unnið titla undanfarin tvö ár - nokkuð sem er óvanalegt á þeim bænum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×