Innlent

Rússneski flotinn á förum

Rússneski flotinn sem haldið hefur til útaf Langanesi undanfarna daga stefnir nú í átt frá landinu eftir að hafa verið hér frá því 29. september. Tvö íslensk fiskiskip hafa fundið þrjá mannlausa rússneska björgunarbáta síðustu daga. Vöknuðu þá spurningar um það hvort rússnesku skipin væru hér vegna þess að slys hefði orðið við íslensku landhelgina. Hafsteinn Hafsteinsson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segist ekki hafa fengið neinar upplýsingar um slíkt. Þær upplýsingar fengust frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar að engin skýr svör hefðu fengist um það hvers vegna flotinn væri hérna. Þó herskipin hefðu fullan rétt á að vera hér væri nú ekki beinlínis daglegt brauð að heill floti væri skammt frá ströndum landsins svo dögum skipti án þess að það væri skýrt hvers vegna. "Einu upplýsingarnar sem við höfum fengið frá skipunum eru að þau séu nú á förum," segir Hafsteinn. Þegar Fréttblaðið hafði samband við rússneska sendiráðið fengust þau svör að flotinn væri hér við hefðbundnar björgunaræfingar. "Björgunarbátarnir týndust í óveðri sem varð þegar æfingarnar stóðu yfir. Það varð því ekkert slys," segir talsmaður sendiráðsins. "Skipin eru nú á förum frá landinu en það er ekki útilokað að þau komi aftur að landinu því björgunaræfingin stendur til 25. október." Varðskip Landhelgisgæslunnar hefur verið á svæðinu þar sem rússnesku skipin hafa verið og þá hefur flugvél hennar einnig farið í eftirlitsverðir um svæðið. Um helgina náði flugvélin myndum af stórum olíuflekk á hafinu en talið er að olían hafi lekið í sjóinn þegar flugmóðurskipið Kuznetsov aðmíráll og birgðaskip voru að umskipa olíu. Frá Landhelgisgæslunni fengust þær upplýsingar að verið sé að skoða það mál.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×