Erlent

Ófrjó en ól samt barn

Belgískri konu, sem varð ófrjó vegna geislameðferðar, hefur nú verið gert kleift að eignast barn með aðferð sem talin er byltingarkennd í læknisfræðinni og gæti valdið straumhvörfum fyrir ungar konur sem fá krabbamein. Konan fékk eitlakrabbamein fyrir sjö árum og þurfti að gangast undir bæði geisla- og lyfjameðferð til að vinna á krabbameininu. Áður en hún fór í meðferðina voru hins vegar tekin vefsýni úr eggjastokki hennar og sýnin fryst. Í fyrra, þegar konan hafði lokið krabbameinsmeðferðinni og sýnt þótti að hún hefði unnið á meininu, voru þessi vefsýni aftur grædd í eggjastokk hennar. Aðeins fjórum mánuðum síðar byrjuðu blæðingar á nýjan leik, konan varð ófrísk á hefðbundin hátt og hefur nú eignast heilbrigt stúlkubarn. Þessi meðferð gæti valdið straumhvörfum því ungar konur sem fá krabbamein hafa hingað til, oftar en ekki, þurft að gefa allar barneignir upp á bátinn. Læknarnir við kaþólska háskólann í Leuven í Belgíu, sem gerðu þessa tilraun, hafa fryst vefsýni úr eggjastokkum hundrað fjörutíu og sex annarra kvenna og binda vonir við að í framtíðinni verði öllum konum á barneignaraldri, sem fara í krabbameins meðferð, boðið upp á þetta val. Af þessu hafa hins vegar sprottið þær siðfræðilegu vangaveltur að konur geti með sömu aðferð leikið á náttúruna og náttúruleg tíðahvörf með því að láta geyma slík vefsýni á unga aldri og látið síðan græða þau aftur í eggjastokkana, hvenær sem er á lífsleiðinni, þegar þær telja sig reiðubúnar að eignast börn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×