Erlent

Úthúðar Evrópusambandinu

Bretland, Danmörk og fleiri ríki sætta sig ekki við alræðisvaldið sem ný, evrópsk stjórnarskrá færir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, að mati Dans Hannans, bresks þingmanns á Evrópuþinginu. Hann telur líklegt að ríkin kjósi fremur svipuð tengsl við Sambandið og ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu. Hannan segir marga veita því athygli að Framkvæmdastjórn ESB sé ólýðræðisleg, því að maður þurfi ekki að vera kosinn til að sitja í henni. Hann gengur svo langt að segja framkvæmdastjórnina einstaka að því leyti að maður þurfi í raun að hafa tapað kosningum til þess að vera valinn í hana. Hannan er heldur ekki hrifinn af nýrri stjórnarskrá Evrópusambandsins þar sem hann segir hana breyta sambandi sjálfstæðra þjóða í sambandsríkið Evrópu. Hann segir að litið sé til alþjóðalaga um skilyrði þess að vera ríki, muni Evrópusambandið uppfylla þau öll, s.s. skilgreint landsvæði, ríkisborgararétt, landamæri, þjóðhöfðingja og þörf fyrir stjórnarskrá. Hannan telur töluverðar líkur á að stjórnarskránni verði hafnað í Bretlandi og víðar, en óttast að efnisatriðum hennar verði smyglað inn víðar svo að í raun muni hún taka gildi burt séð frá niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna. Og hann segir ljóst að tímamót séu í vændum, geti sum aðildarlandanna ekki sætt sig við þetta. Það myndi þýða að þær þjóðir sem ekki myndu samþykkja stjórnarskrána yrðu skilgreindar sem aukaaðilar. Það yrði nálægt þeirri stöðu sem ríki EES séu í, m.ö.o. taki þessi ríki þátt í innri markaðnum, en þó ekki þátt í pólitískum stofnunum sambandsins. Kannski geti ríkin öðlast aðild að ESB með stöðu í ytri lögum þess. Verið aðilar að frjálsa markaðnum, en með stöðu sjálfstæðs ríkis með sjálfstjórn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×