Erlent

1600 látnir á Haiti?

Óttast er að allt að sextán hundruð manns hafi farist þegar fellibylurinn Jeanne gekk yfir Haítí, þar af fjölmörg börn. Neyðarástand er í landinu og segja talsmenn hjálparstofnana bráðnauðsynlegt að bregðast þegar í stað við. Ljóst er að Jeanne olli mun meiri skemmdum og mannfalli en í fyrstu var talið. Forsætisráðherra Haiti, Gerhard Latortue, segir ástæðu til að telja 1600 hafa týnt lífi í storminum, þar sem um 700 lík hafa þegar fundist og þúsund er saknað. Hann kveður um 160 þúsund manns hafa orðið fyrir skaða, en bylurinn olli miklum skemmdum og flóðum, sem valdið hafa mestum usla. Í líkhúsum er vart pláss fyrir fleiri lík en björgunarmenn segja líkur á að fleiri finnist þegar vatnið tekur að sjatna. Þeir stafla líkum fyrir utan, þar sem þau bakast í þrjátíu stiga hita og flugur sveima yfir. Sjúkrahús eru flest stórskemmd og vart fær um að taka við og meðhöndla sjúkdóma. Talsmenn hjálparsamtaka segja ástæðu til að óttast að smitsjúkdómafaraldur brjótist út, þar sem að vatn liggur víða yfir og loftslagið er mjög rakt. Verst er ástandið í borginni Gonaives, þar sem talið er að hvert einasta hús hafi orðið fyrir skemmdum. Á sumum stöðum í borginni er flóðavatnið allt að þriggja metra djúpt, og hræ dýra fljóta þar um og rotna. Megna nálykt leggur yfir alla borgina, og segja yfirvöld þar nauðsynlegt að grafa fjöldagrafir og urða hreinlega lík þeirra sem fórust. Talið er að á þriðja hundrað þúsund manna þurfi á neyðaraðstoð og matvælum að halda, en lið Sameinuðu þjóðanna hóf að dreifa hjálpargögnum í gær. Starf þeirra er þó erfitt, því að þar sem ekki eru ennþá flóð eru vegir handónýtir, og því nánast einungis þyrlur sem dreift geta gögnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×