Erlent

Vill að fleiri hjálpi til í Írak

"Lýðræðislegt Írak á sér miskunnarlausa óvini," sagði George W. Bush Bandaríkjaforseti þegar hann ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Hann hvatti þjóðir heims til að aðstoða við uppbyggingu Íraks og varði þá ákvörðun sína að gera innrás í Írak þrátt fyrir að deilt væri um lögmæti hennar. "Sameinuðu þjóðirnar og aðildarríki þeirra þurfa að verða við beiðni Allawi forsætisráðherra og gera meira til að hjálpa til við að byggja upp Írak sem er öruggt, lýðræðislegt og frjálst," sagði hann og vísaði til þess að Allawi væri viðstaddur fundinn í húsnæði Sameinuðu þjóðanna. Skömmu áður en Bush tók til máls hafði Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, varað við því að lög og regla væru í hættu á heimsvísu. Stutt er síðan hann sagði innrásina í Írak hafa verið ólöglega. Nú fordæmdi hann gíslatökur og morð á gíslum í Írak en benti einnig á að íröskum föngum hefði verið misþyrmt með viðurstyggilegum hætti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×