Innlent

Rangar upplýsingar segir Halldór

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra telur að þær þjóðir sem studdu innrásina í Írak hafi ekki fengið réttar upplýsingar um ástandið í landinu. Hann vill þó ekki taka svo djúpt í árinni að hinar staðföstu þjóðir hafi verið blekktar til að styðja innrásina. Kofi Annan framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur lýst því yfir að innrásin í Írak hafi verið ólögleg en ummælin hafa vakið mikla reiði forystumanna þeirra þjóða sem studdu innrásina. Halldór Ásgrímsson segir hins vegar að ekki sé rétt að dvelja við fortíðina. Hann segist alltaf hafa talið að innrásin stæðist alþjóðalög, enda hafi Sameinuðu Þjóðirnar ályktað um þetta mál skipti eftir skipti og hann hafi ekki breytt um skoðun í þeim efnum. Hann telur þetta ekki skipta máli úr því sem komið er, það sé framtíðin sem skipti máli. Halldór Ásgrímsson segir vissulega rétt að það hafi ekki fundist geryðingarvopn en hinsvegar hafi Írakar búið yfir kunnáttu til að framleiða þau. Hann segir hins vegar að þegar menn fái ekki réttar upplýsingar séu vonbrigðin auðvitað töluverð og þær upplýsingar sem Íslendingar hafi haft í höndum hafi ekki að öllu leyti staðið. Halldór Ásgrímsson segir nauðsynlegt að endurskipuleggja öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna, þar sem það skipti máli að Öryggisráðið sé sterkt tæki til að grípa inn í þegar á þarf að halda og mannréttindi séu fórum troðin. Hann segir hins vegar mikilvægast að horfa til framtíðar, nú séu allir sammála um að það þurfi að hjálpa Írökum til lýðræðis og gott sé að Saddam Hussein sé farinn frá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×