Sport

Heimsbikarinn í íshokkíi í kvöld

Úrslitaleikur heimsbikarsins í íshokkíi fer fram í Toronto í kvöld en þar mætast Finnar og Kanadamenn. Þeir fyrrnefndu gerðu sér lítið fyrir og slógu út Bandaríkjamenn, 2-1, í spennandi slag í St. Paul í Bandaríkjunum. Nú bíður þeirra ekki síður erfitt verkefni, að vinna Kanadamenn á útivelli, en kanadíska liðið hefur verið sérlega heppið og ávallt hreppt heimavöllinn á úrslitastundu. "Ég vona að þetta sé í síðasta sinn sem heimavöllurinn fellur þeirra megin," sagði Raimo Summanen, þjálfari finnska landsliðsins, og hló. "Við verðum að spila sem einn maður og það eru vissir hlutir sem þurfa að vera á hreinu." Hið baráttuglaða lið Finna skoraði tvö mörk í lokaþriðjunginum gegn Bandaríkjamönnum á föstudaginn var og setti bandaríska liðið út í kuldann. En ætli Finnarnir séu sáttir við það eitt að vera komnir í úrslit? "Ég spurði sjálfan mig að því í gær," sagði Summanen. "Við verðum að mæta hungraðir í þennan leik og við höfum reynt að koma því hugarfari að hjá leikmönnunum," bætti þjálfarinn við. Kanadamenn unnu Tékka í undanúrslitum, 4-3, og mæta vígreifir til leiks þó að einhver meiðsli hrjái leikmenn þar á bæ. Þeirra aðalmarkvörður, Martin Brodeur, er meiddur á úlnlið. "Ég mætti ekki á æfingu í gær en þetta er allt að koma. Ég býst við að verða á ísnum í kvöld," sagði Brodeur. Leikurinn fer fram í Air Canada Centre, heimavelli Toronto Maple Leafs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×