Innlent

Þjóðahátíð á Austfjörðum

Þjóðahátíð á Austfjörðum tókst hið besta en hún er haldin undir þeim einkunnarorðum að fræðsla sé grundvöllur þess að margar þjóðir geti búið saman. Þjóðahátíð Austfirðinga var haldin í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum í dag. Margt var um manninn og mátti sjá fólk af ýmsu þjóðerni. Hátíðin var haldin til að fagna þeirri menningarlegu fjölbreytni sem nú er ríkjandi í íslensku samfélagi, ekki síst á Austurlandi þar sem búa og starfa margir útlendingar, t.d. við virkjunarframkvæmdir við Kárahnjúka. María Ósk Kristmundsdóttir verkefnastjóri segir þetta hafa mikla þýðingu fyrir utanaðkomandi; að fá að taka þátt í samfélaginu á austurlandi og kynna sig. Fyrir heimamenn sé þetta mjög ánægjulegt og til þess gert að víkka sjóndeildarhringinn.  Á veggjum íþróttahússins mátti sjá fána landa heimsins hanga en þeir voru unnir af nemendum í sjónlist í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Það var Rauði kross Íslands sem stóð fyrir hátíðinni en fjölmargir sjálfboðar og félagasamtök lögðu hönd á plóg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×