Sport

Enn á ný flakkar Souness

Graeme Souness var ráðinn knattspyrnustjóri hjá Newcastle United í gær. Viku fyrr hafði Bobby Robson verið látinn taka pokann sinn eftir slaka byrjun Newcastle-liðsins, sem er í 17. sæti í ensku úrvalsdeildinni. Souness, sem hefur verið á mála hjá Blackburn Rovers síðustu fjögur árin, sagði starfi sínu lausu eftir fyrstu fimm leiki tímabilsins í haust. Forráðamenn Newcastle sögðu Skotann vera mikinn feng fyrir liðið. „Hann er með gríðarlega reynslu í farteskinu og við hlökkum til að fylgjast með honum halda áfram með þá uppbyggingu sem hér hefur verið undanfarin ár“ sagði Freddy Shepherd, stjórnarformaður Newcastle United. Graeme Souness á langan feril að baki, bæði sem þjálfari og leikmaður. Hann hóf ferilinn hjá Tottenham, Middlesbrough og Liverpool nutu einnig krafta hans og eftir stopp hjá Sampdoria kláraði hann ferilinn hjá Glasgow Rangers sem spilandi þjálfari. Souness lék að auki 54 landsleiki fyrir Skotland. Árið 1991 tók hann við af fyrrum samherja sínum, Kenny Dalglish, sem knattspyrnustjóri Liverpool og hélt út tvö tímabil með félagið. Á þessum tíma átti Souness við alvarleg veikindi að stríða og fór í hjáveituaðgerð 1992. Hann sagði skilið við Liverpool eftir tímabilið 1992-1993, sem var það versta í 30 ár hjá félaginu. Töluvert flakk hefur einkennt feril Souness fram að árinu 2004. Tyrkneska liðið Galatasaray, Torino á Ítalíu og Benfica í Portúgal höfðu hann í sínum röðum áður en hann gekk til liðs við Blackburn. „Ég kveð Blackburn með miklum söknuði,“ sagði Souness í gær. „Ég er búinn að eiga fjögur góð ár með félaginu en taldi tímabært að róa á ný mið. Newcastle er stórt félag og ég er mjög spenntur fyrir þessu verkefni“.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×