Sport

Helena bjartsýn þrátt fyrir tapið

Helena Ólafsdóttir landsliðsþjálfari sagði að leikurinn gegn Rússum hefði litið vel út framan af. "Í fyrri hálfleik gekk okkur mjög vel og liðið spilaði öflugan bolta. Við áttum svör við öllu sem þær voru að gera og það hefði verið sterkt að ná að skora í hálfleiknum. Við komum svo allt öðruvísi stemmdar í seinni hálfleik þar sem við náðum ekki að spila okkar bolta. Mér fannst vanta meiri samvinnu í seinni hálfleik og að við myndum þjappa okkur betur saman og færa liðið framar. Miðjusvæðið var t.a.m. fullstórt fyrir miðjumennina til að vinna á og þá er voðinn vís. Heppnin var heldur ekki með okkur og mér fannst Rússarnir komast vel frá þessu með sín mörk, svolítill heppnisstimpill yfir þeim. Í fyrri hálfleik hafði ég í raun engar áhyggjur enda boltinn að ganga fínt þá. Í seinni hálfleik var hins vegar allt annað upp á teningnum. Við erum núna bara að kynnast mótlæti sem á vonandi eftir að þjappa okkur enn betur saman." Helena vildi ekki fullyrða hvort einhverjar breytingar yrðu gerðar fyrir komandi leiki. "Við erum búnar að prófa eitthvað um 30 leikmenn þannig að við höfum úr miklu að moða. Það verður bara að koma í ljós hvað við gerum. Ásthildur Helgadóttir mun svo vonandi vera með okkur í lokakeppninni þegar við erum búnar að tryggja okkur farseðilinn þangað."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×