Sport

Fítonskraftur Erlu ekki nóg

Erla Steinunn Arnardóttir, sem leikur með Stattena IF í Svíþjóð, kom inn á í seinni hálfleik í sínum fyrsta landsleik fyrir Ísland. Erla sýndi mikinn kraft í leik sínum og reif framlínuna vel upp, þótt ekki hafi náðst að skora mark. Hún var svekkt yfir að tapa leiknum og sagði að þær hefðu getað gert betur. "Ég er kraftböggull og hata að tapa," segir Erla og brosir. "En það var svekkjandi að tapa þessum leik. Við vorum duglegar að láta boltann rúlla okkar á milli og spiluðum á köflum alveg feiknavel, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við náðum hins vegar ekki að skjóta neitt að ráði á markið og uppskárum eftir því. Hefðum mátt sækja fastar og setja meiri pressu á þær. Við vorum mjög frískar til að byrja með í leiknum en náðum ekki að fylgja því eftir og Rússarnir gengu á lagið. Þær eru með reynslumikið lið og biðu í rólegheitum eftir að geta tekið leikinn föstum tökum. Það tókst og því fór sem fór." Erla Steinunn sagði að þær þyrftu að staldra við og athuga hvað mætti betur fara. "Við getum gert betur en þetta og munum setja meiri kraft í næsta leik."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×