Sport

Allt vitlaust á Highbury

Arsenal mætti Middlesbrough á Highbury í gær í brjáðfjörugum leik. Arsenal-menn byrjuðu leikinn vel og komust yfir um miðjan fyrri hálfleik með marki frá Thierry Henry. Boro-menn voru þó ekki skammt undan og jafnaði Joseph-Desire Job metin rétt fyrir hlé. Í byrjun seinni hálfleiks hófst mikið markaregn þar sem lið Middlesbrough fór hamförum. Með mörkum frá Jimmy Floyd Hasselbaink og Frank Queudrue komust þeir í þægilega 3-1 forystu þegar aðeins 8 mínútur voru liðnar. Stuðningsmenn Arsenal þurftu aðeins að bíða í rúma mínútu eftir að Dennis Bergkamp minnkaði muninn með lúmsku skoti. Við þetta tvíefldust leikmenn Arsenal og þeir Antonio Reyes og Robert Pires skoruðu nánast á sömu mínútunni og Arsenal því komið með forystuna. Henry gulltryggði svo frábæran leik sinn með öðru marki sínu og með sigrinum jafnaði Arsenal gamalt met Nottingham Forest með að spila fjörutíu og tvo leiki án taps. Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, var skýjum ofar með úrslitin og metið. "Maður fór í gegnum allan tilfinningaskalann," sagði Wenger. "Við misstum ekki móðinn þrátt fyrir að lenda 3-1 undir. Það virtist efla okkur, ef eitthvað var." Steve McClaren, knattspyrnustjóri Middlesbrough, var svekktur með að ná ekki að halda fengnum hlut. "Það á eftir að taka mig nokkra daga að jafna mig á þessu," sagði McClaren svekktur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×