Innlent

Ferðaþjónusta í Reykjarfirði

Um 500 manns hafa lagt leið sína í Reykjarfjörð á Vestfjörðum í sumar. Ferðamönnum þangað fjölgar ár frá ári, þrátt fyrir að enginn sé þangað vegurinn. Þrátt fyrir að Reykjarfjörður hafi verið í eyði í rúma fjóra áratugi þá fer ferðamönnum þangað fjölgandi, þökk sé Ragnari Jakobssyni, sem man tímana tvenna úr firðinum. Hann heldur uppi ferðamannaþjónustu í þessum eyðifirði á Vestfjörðum, og segir ferðamönnum fara fjölgandi frá ári til árs. Hann segir tíðarfarið einstaklega gott í sumar. 500 manns hafi komið í sumar og skráðar hafi verið 1100 gistinætur. Til að komast til Reykjafjarðar þarf að fara gangandi, ríðandi, fljúgandi eða með báti, eins og flestir gera. Ragnar segir fólk stoppa allt upp í fimm nætur í firðinum. Gönguleiðir í firðinum eru meðal annars á Geirólfsgnúp og eins leggja margir leið sína frá Reykjarfirði suður í Ófeigsfjörð á Ströndum. Ragnar segir marga ferðamenn kaupa mat á staðnum og slá þar jafnvel upp veislu. Flestir fara fyrst í sund og svo er kveiktur varðeldur á kvöldin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×