Sport

Fundu fæðubótarefni þjálfarans

Gríska lögreglan fann í gær fæðubótarefni sem innihéldu örfandi efni og stera sem eru á bannlista íþróttamanna þegar hún rannsakaði húsakynni þjálfara grísku spretthlauparanna; Costas Kenteris og Katerinu Thanou. Þjálfarinn Christos Tzekos rak verslun og seldi íþróttamönnum fæðubótarefni og fann gríska lögreglan um 1400 kassa. Málið kom í raun fyrst upp í fyrra þegar eiturlyfjadeild grísku lögreglunnar fann 641 kassa hjá þjálfaranum og fyrirtæki hans var kært fyrir að hafa fæðubótarefni sem innihéldu ólögleg efni, efedrin og stera. Ekkert var aðhafst því ekki er ólöglegt að versla með fæðubótarefnin í Grikklandi, en í þeim eru efni sem eru á bannlista íþróttamanna, m.ö.o. almenningur má neyta þeirra en ekki fólk sem tekur þátt í keppnisíþróttum. Spretthlauparinn Kenteris hefur sagt skilið við þjálfara sinn en mál þetta er allt hið vandræðalegasta. Gríska lögreglan hefur ekki enn fundið olíupollinn sem Kenteris segir að hafi orsakað vélhjólaslysið margfræga sem rennir stoðum undir að það hafi verið sviðsett. Gríska íþróttahreyfingin varð fyrir enn einu áfallinu í gær þegar Leonídas Sampanis, bronshafi í lyftingum, féll á lyfjaprófi. Í morgun var greint frá því í Grikklandi að yfirvöld þar í landi ætluðu að auka lyfjaeftirlit í skólum. Frá og með næsta skólaári mega menntaskólanemar sem keppa á íþróttamótum eiga von á því að verða skikkaðir í lyfjapróf. Grikkir eru þó ekki þeir einu sem eru að falla á lyfjaprófum. Albina Khomich rússnesk lyftingakona féll á lyfjaprófi en hún átti að keppa í þungavigt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×