Innlent

Bati í rekstri Flugleiða

Flugleiðasamstæðan hagnaðist um 12 milljónir króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins. Á sama tíma í fyrra var rúmlega 900 milljóna tap. Þetta er í þriðja skipti frá stofnun félagsins sem hagnaður er af rekstrinum á fyrri hluta ársins, en miklar árstíðasveiflur eru jafnan í rekstrinum. Þrátt fyrir tap á fyrstu 6 mánuðum ársins í fyrra var hagnaðurinn 1,4 milljarðar. Velta á rekstri samstæðunnar jókst um 18 % á fyrri helmingi ársins og var 18.9 milljarðar króna. Flugleiðasamstæðan samanstendur af móðurfélaginu Flugleiðum og 13 dótturfélögum. Hagnaður var 33 milljónir króna fyrir skatta en á sama tíma í fyrra var 1.1 milljarðs króna tap á starfseminni. Hluta batans má rekja til söluhagnaðar. Spáð er betri afkomu af félaginu árið 2004 en í fyrra, en Sigurður Helgason, forstjóri Flugleiða, kynnti sex mánaða uppgjör félagsins í dag. Betri afkoma er í flestum rekstrareiningum Flugleiða. Afkoma Icelandair, stærsta dótturfélags Flugleiða, hefur batnað þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður, segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Verulegur viðsnúningur er sagður hafa orðið í rekstri Loftleiða Icelandic og umtalsverður rekstrarbati hjá Flugleiðum Frakt. Helstu breytingar í rekstri Icelandair eru sagðar mikil fjölgun farþega frá fyrra ári en á móti kemur lækkun fargjalda og mikil verðhækkun á eldsneyti. Þó er gert ráð fyrir að eldsneytisverðhækkanir hafi meiri áhrif á afkomuna á seinni helmingi ársins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×