Innlent

Hótanir Norðmanna hafa áhrif

Íslensku skipin fimm sem voru að síldveiðum við Svalbarða héldu út af norska svæðinu í gærkvöldi. Páll Guðmundsson, útgerðarstjóri Hugins í Vestmannaeyjum, segir að hótanir Normannanna um að setja skipin á svartan lista hafi haft sitt að segja. Á miðnætti tóku í gildi reglur norskra stjórnvalda um einhliða kvótaúthlutun á svæðinu, sem Norðmenn segja nauðsynlegar til að vernda síldarstofninn. Í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar sagði Sven Ludvigssen, sjávarútvegsráðherra Norðmanna, að hann vænti þess að allir myndu hlýta ákvörðun norskra stjórnvalda og að engin skip yrðu á svæðinu eftir miðnætti. Að öðrum kosti myndi strandgæslan grípa til aðgerða, og skipin færu á svartan lista. Hingað til hafa Íslendingar ekki viðurkennt rétt Norðmanna til að úthluta kvóta á svæðinu einhliða. Fyrir stuttu lýsti Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ því yfir að Íslendingar myndu fara í hart við Norðmenn ef þeir héldu kröfum sínum til streitu. Nú virðast íslensku skipin hins vegar hafa látið undan kröfum Normannanna. Páll Guðmundsson, útgerðarstjóri Hugins í Vestmannaeyjum, sem gerir út eitt skipanna fimm sem verið hafa á Svalbarða, segir erfitt annað en að taka mark á hótunum norskra stjórnvalda. Guðni Ölversson, fréttaritari Bylgjunnar og Stöðvar 2, í Noregi segir engan vafa leika á því að norska strandgæslan muni hjóla í íslensk skip, ef þau halda áfram að veiða við Svalbarða. Þá hafi verið fjallað um málið í norskum fjölmiðlum. Sé þar lýst yfir ánægju með að Íslendingar hafi siglt út úr verndarsvæði Norðmanna, og ekki hafi komið til átaka. Þá segir hann að Norðmenn líti það alvarlegum augum að fá að vera verndarar Norður Atlantshafsins. Guðni segist fastlega gera ráð fyrir að norsku varðskipin muni hafa afskipti af íslenskum skipum á Svalbarða ef miðað er við fyrri reynslu úr Barentshafinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×