Innlent

Eftirlit með fæðingarorlofi

Skattayfirvöld hafa eftirlit með því frá næstu áramótum að foreldrar vinni ekki í fæðingarorlofi sínu. Frá og með næstu áramótum mun skatturinn fylgjast vel með þeim sem eru í fæðingarorlofi. Það er einkum tvennt sem hefur borið á að foreldrar geri til að misnota fæðingarorlofskerfið, að því er fram kemur í Tíund, fréttablaði Ríkisskattstjóra. Hvoru tveggja á fyrst og fremst við um sjálfstæða atvinnurekendur og verktaka. Annars vegar hefur borið við að foreldrar hækki tekjur sínar á pappírum til að fá hærri greiðslur í fæðingarorlofinu. Skila þeir þá launaseðlum inn til Tryggingastofnunar með háum launum, laun sem samsvara síðan ekki því sem skatturinn fær uppgefið. Um áramótin fær Tryggingastofnun heimild til að leiðrétta greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi þegar álagning skattayfirvalda liggur fyrir, og verður þeim þá gert að endurgreiða sjóðnum ef þeir hafa fengið of mikið. Að sama skapi þarf Tryggingastofnun að greiða foreldrum mismuninn ef þeir hafa fengið of lítið. Hins vegar eiga skattayfirvöld frá áramótum að fylgjast með að foreldrar leggi í raun og veru niður störf í fæðingarorlofinu. Þetta verður þó ekki gert með því að liggja á gluggum fólks eða elta það í vinnuna, heldur með því að fylgjast með staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá meðan fæðingarorlofið stendur yfir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×