Innlent

Landeigandi fær frest til andmæla

Frestur landeigenda á Héraði til andmæla vegna fyrirhugaðs eignarnáms Landsvirkjunar á fimm jörðum hefur verið framlengdur um viku. Ágúst Sindri Óskarsson, lögfræðingur Sigurðar Arnarssonar sem er einn landeigendanna fimm, segist hafa farið þess á leit við iðnaðar-og viðskiptaráðuneytið að þriggja vikna frestur skjólstæðings síns til að andmæla eignarnáminu yrði framlengdur um viku. Iðnaðarráðuneytið samþykkti það undir eins. Ágúst segir skjólstæðing sinn ósáttan við það hve rafmagnslínan, sem Landsvirkjun hyggst leggja í gegnum land hans, mun liggja nálægt húsi sínu. Sjálfur segist Ágúst nýkominn úr fríi og það sé ein af ástæðunum fyrir því að beðið var um frekari frest til andmæla. Hann muni fara betur yfir stöðuna með skjólstæðingi sínum þegar líður á vikuna. Pétur Örn Sverrisson, deildarsérfræðingur á orkusviði iðnaðarráðuneytisins, segir aðra landeigendur ekki hafa beðið um frekari frest. Hins vegar hafi þótt sjálfsagt að verða við beiðni lögfræðings Sigurðar og það hafi því verið gert.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×