Innlent

Deila um magn sprengiefnis

Sprengjusérfræðingum Landhelgisgæslunnar og sprengjusérfræðingi Ístaks ber ekki saman um magn sprengjuefnisins sem fannst við Tjörnes í fyrrakvöld. Lögreglunni á Þórshöfn var gert viðvart um sprengiefni við þjóðveg í Tjörnesi aðfaranótt föstudags. Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru sendir norður með þyrlu og sprengdu þeir efnið. Sprengiefnið sem fannst var í plastslöngum ásamt tundurþræði. Það var í góðu ásigkomulagi en hafði að hluta til aðskilist svo sprengifimur vökvi lak út úr slöngunum samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Ákveðið var að sprengja efnið frekar en að fjarlægja það, þar sem talin var hætta á að það spryngi yrðu tundurþræðirnir fyrir hnjaski. Adrian King hjá sprengjudeild Landhelgisgæslunnar segir að þeir áætli að um 25 kíló af sprengiefni hafi verið að ræða. Loftur Árnason, framkvæmdastjóri Ístaks, segir það alvarlegt mál sprengiefni hafi orðið eftir þegar framkvæmunum var lokið. Að hans sögn hefur sprengiefnið ekki sprungið á sínum tíma þegar reynt var að slétta bergvegg við veginn, en holurnar sem efnið var í hafi grafist undir í sprengingu. Veðrun hafi síðan rutt efni frá sprengiefninu sem kom þá í ljós. Hann segir það hins vegar af og frá að um 25 kíló af sprengiefni hafi orðið eftir, það geti í mesta lagi verið um tvö kíló. "Þeir virðast ekki átta sig á því að sprengjuholurnar voru ekki fullar af sprengiefni, það voru í mesta lagi 200 grömm á hvern metra. Sprengjusérfræðingur Ístaks fór á svæðið til að kanna aðstæður. Hann segir að svæðið sem Landhelgisgæslan sprengdi sé í mesta lagi um 10 metrar, ekki 30 eins og Landhelgisgæslan segir. Loftur telur að hættan af sprengiefninu hafi ekki verið mikil eins og því var fyrirkomið. Hvellettu eða annan straumrofa hafi þurft til að sprengja það og því hafi ekki um mikla hættu verið að ræða, þó hann dragi ekki úr alvarleika þess að sprengiefni hafi orðið eftir. Gylfi Geirsson hjá Landhelgisgæslunni segir skýringar Lofts ekki standast. Nota hafi þurft stiga til að komast að efninu og það sé því af og frá að það hafi grafist undir í sprengingu. Auk þess hafi það magn, sem Loftur segir að hafi verið þarna, ekki nægt til að valda jafn mikilli sprengingu og varð þegar efninu var eytt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×