Sport

Logi hættir með landsliðinu

Hinn 22 ára gamli Logi Geirsson, sem lék með FH-ingum á síðasta tímabili og spilar með þýska stórliðinu Lemgo á komandi tímabili, hefur ákveðið að hætta að æfa með landsliðinu sem undirbýr sig nú af kappi fyrir Ólympíuleikana í Aþenu. Logi tilkynnti Guðmundi Guðmundssyni landsliðsþjálfara þetta á þriðjudaginn, daginn eftir að liðið kom frá Ungverjalandi þar sem það lék tvo vináttulandsleiki. Logi var ekki valinn í hópinn sem fór til Ungverjalands og var einn þriggja leikmanna sem sat eftir heima en auk hans voru Patrekur Jóhannesson og Vignir Svavarsson sem fóru ekki með í ferðina. Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari staðfesti í samtali við Fréttablaðið í gær að Logi væri hættur en vildi að öðru leyti lítið tjá sig um málið. Hann sagði þó að þetta væri hans val og að enginn væri þvingaður til að æfa með landsliðinu. Guðmundur neitaði því staðfastlega að ósætti hefði verið á milli hans og Loga eða leikmannanna og Loga og vildi ekki gefa neinar skýringar á því að Logi hætti. "Þú verður að spyrja hann að því," sagði Guðmundur aðspurður. Logi sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að hann væri hættur í bili og ástæðan fyrir því myndi ekki fara í blöðin. "Þetta er á milli mín og þjálfarans og þannig verður þetta," sagði Logi og bætti við að hann hefði ekkert upp á Guðmund á klaga; "Hann er toppkarl," sagði Logi sem heldur utan til Þýskalands á sunnudaginn þar sem hann hefur nýtt líf sem atvinnumaður hjá þýska stórliðinu Lemgo.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×